Siðareglur

Verktækni - tímarit Verkfræðingafélags Íslands.

Ritstjórn

Stjórn Verkfræðingafélags Íslands tilnefnir sjö einstaklinga til að sitja í ritstjórn tímaritsins. Samsetning ritstjórnar skal endurspegla fjölbreytileika og mismunandi fagsvið verkfræðinnar og greina tengdum henni. Fræðileg þekking ritstjórnar skal vera í samræmi við kröfur sem gerðar eru til alþjóðlegs fræðirits í fyrsta flokki. Ritstjórnin einsetur sér að vinna í samræmi við siðareglur tímaritsins og Verkfræðingafélags Íslands.

Ritstjórn ein hefur ákvörðunarrétt um það hvort greinar skulu birtar eða þeim hafnað. 

Ritstjórnarfulltrúi vinnur með ritstjórninni og sér um samskipti við höfunda, ritrýnendur og lesendur. 

Tímaritið fylgir siðareglum um útgáfu eins og þær eru settar fram af Committee on Publication Ethics, COPE.

Ábyrgð höfunda

Höfundar sem senda fræðigrein til  og óska eftir birtingu hennar skulu tryggja eftirfarandi:

  • Fræðigreinin er upprunalegt verk höfundar.
  • Fræðigreinin hefur ekki verið send öðrum tímaritum til skoðunar eða birtingar.
  • Fræðigreinin hefur ekki birst á öðrum vettvangi.
  • Allir höfundar og aðrir sem tengjast ritun greinarinnar skulu hafa veitt samþykki fyrir því að óska eftir ritrýni og birtingu hennar í tímaritinu. Ef vafi leikur á um hver eða hverjir eigi að vera skráðir sem meðhöfundar eða í "Þakkir" (e. akcknowledgements) má finna upplýsingar hér: International Committee of Medical Journal Editors (www.icmje.org)
  • Gera grein fyrir mögulegum hagsmunatengslum við ritun og ritrýni greinarinnar.
  • Getið er allra heimilda við ritun greinarinnar hvort sem það eru rannsóknir, önnur verkefni eða fræðigreinar.
  • Leyfi hefur verið fengið fyrir notkun tölfræðigagna eða annarra heimilda sem kunna að vera varðar höfundarrétti.
  • Upplýst er um alla kostun eða fjármuni sem hefur verið aflað vegna viðkomandi rannsóknar eða við skrif greinarinnar. 
  • Allra heimilda er getið og rétt til þeirra vísað í  heimildaskrá, þ.m.t. önnur verk höfundar sem kunna að hafa verið notuð.
  • Ritrýendur sem höfundur gerir hugsanlega tillögu um hafi ekki hagsmuna að gæta. 

Frumleiki og ritstuldur

Í þeim tilvikum þar sem innsend grein er um sama efni eða endurskoðuð útgáfa eldri greinar eftir sömu höfunda þá á að minnsta kosti helmingur textans að vera með öðrum hætti en í eldra verki. Ritstjórn ákveður hvort þetta skilyrði er uppfyllt. Jafnframt verður að tiltaka eldri grein sem heimild.

Ritstuldur eða hvers konar afritun eða umorðun á verkum annarra, ef heimildar er ekki getið á réttan hátt, leiðir til þess að grein er hafnað. Þetta á líka við eigin efni höfundar, þ.e. að nota eldri án þess að geta heimilda með réttum hætti. Ritstjórn notar tiltæk tól eins og "CrossCheck" til að kanna hvort um ritstuld geti verið að ræða. 

Ritrýniferlið

Innsend grein skal ritrýnd af að minnsta kosti tveimur fræðimönnum. Um er að ræða „blinda rýni" þar sem hvorki koma fram nöfn höfunda né ritrýnenda. Ritstjórn mun fyrst og fremst fara eftir niðurstöðum ritrýnenda við mat á birtingu greina en úrskurða í ágreiningsmálum þar sem ritrýnendum ber ekki saman um niðurstöðuna.

Útgáfuform

Þegar grein hefur verið birt á vef tímaritsins og/eða á prentuðu formi verður henni ekki breytt. Höfundar og lesendur geta þó sent inn athugasemdir til ritstjórnar og óskað eftir leiðréttingum vegna mistaka hjá höfundi (Corrigendum) eða vegna villna sem orðið hafa við útgáfu greinarinnar (Erratum). 

Stafræn varðveisla

Innihald tímaritsins er varðveitt stafrænt á Tímarit.is sem er stafrænt safn sem veitir aðgang að milljónum myndaðra blaðsíðna á stafrænu formi af þeim prentaða menningararfi sem varðveittur er í blöðum og tímaritum frá Færeyjum, Grænlandi og Íslandi. Aðgangur er öllum opinn og stuðst er við nýjustu tækni í geymslu og miðlun upplýsinga. Með því að geyma allt útgefið efni í geymslu tryggir tímaritið að allt efni verði áfram aðgengilegt fræðimönnum framtíðarinnar um allan heim.