Um tímaritið

Verktækni // Icelandic Journal of Engineering

Tímaritið er gefið út af Verkfræðingafélagi Íslands (VFÍ). Í ritinu eru birtar ritrýndar fræðigreinar og er unnið að skráningu í Scopus gagnagrunninn. Það sýnir vilja Verkfræðingafélags Íslands að gefa út fræðigreinar samkvæmt góðum og viðurkenndum vísindalegum aðferðum.

Verktækni tímarit Verkfræðingafélags Íslands kom fyrst út í september 2013. Í tímaritinu voru birtar ritrýndar greinar og almennar tækni- og vísindagreinar auk annars efnis. Í árslok 2019 varð sú breyting á útgáfunni að áherslan er fyrst og fremst á útgáfu ritrýndra fræðigreina. Markmiðið er að tímaritið verði ISI-tímarit, þ.e. viðurkennt alþjóðlegt fræðirit í fyrsta flokki. Nú er unnið að skráningu í Scopus gagnagrunninn. 

Saga

Verkfræðingafélag Íslands var stofnað 1912. Allt frá stofnun hefur útgáfa verið mikilvægur liður í faglegu starfi félagsins. Verktækni tímarit Verkfræðingafélags Íslands kom fyrst út í september 2013 og var meðal annars ætlað að leysa af hólmi Árbók félagsins. Í tímaritinu voru birtar ritrýndar greinar og almennar tækni- og vísindagreinar auk annars efnis. Fram að þeim tíma, frá 1995, var blaðið 16 blaðsíður og kom út allt að tólf sinnum á ári. Í dag er áherslan á útgáfu ritrýndra fræðigreina og er takmarkið að Verktækni tímarit Verkfræðingafélags Íslands (e. Icelandic Journal of Engineering) verði alþjóðlegt fræðirit í fyrsta flokki.

Öll rit sem Verkfræðingafélag Íslands hefur gefið út má nálgast á Tímarit.is

Ritstjórn

Ritstjórn ber ábyrgð á útgáfu tímaritsins og að vinnubrögð séu fagleg og í samræmi við stefnu útgefanda. 
Dr. Bjarni Bessason, ritstjóri, Háskóli Íslands. - Jarðskjálftaverkfræði, burðarvirki.
Dr. Helgi Þór Ingason, Háskólinn í Reykjavík. - Rekstrarverkfræði, verkefnastjórnun, quality management.
Dr. Kristinn Andersen, Háskóli Íslands. Rafmagns- og rafeindaverkfræði. Sjálfvirkni, skynjarar, tölvusjón, stýrifræði, upplýsingatækni, gervigreind.
Dr. María S. Guðjónsdóttir, Háskólinn í Reykjavík. - Jarðhitanýting, orkuverkfræði.

Ritstjórnarfulltrúi hefur daglega umsjón með útgáfunni og sér um samskipti við höfunda og ritrýnendur.
Sigrún S. Hafstein, Verkfræðingafélag Íslands.  

Opinn aðgangur (e. open access - OA) og prentun

Frá árinu 2020 hafa fræðigreinar verið birtar á vef tímaritsins jafnóðum og þær eru tilbúnar til birtingar. Aðgangur er opinn (e. Green Open Access). Höfundar greiða ekki fyrir innsendingu á handriti né birtingu greina. Í lok hvers almanaksárs er gefið út prentað tölublað með greinum nýliðins árs. Hægt er að panta prentað tölublað á skrifstofu VFÍ. Greinar sem óskað er eftir að birtist á yfirstandandi ári þurfa að berast ritstjórnarfulltrúa fyrir lok septembermánaðar. Tímaritið er með vefsvæði annars vegar á íslensku og hins vegar á ensku (frá 2021).

Stafræn varðveisla

Innihald tímaritsins er varðveitt stafrænt á Tímarit.is sem er stafrænt safn sem veitir aðgang að milljónum myndaðra blaðsíðna á stafrænu formi af þeim prentaða menningararfi sem varðveittur er í blöðum og tímaritum frá Færeyjum, Grænlandi og Íslandi. Aðgangur er öllum opinn og stuðst er við nýjustu tækni í geymslu og miðlun upplýsinga. Með því að geyma allt útgefið efni í geymslu tryggir tímaritið að allt efni verði áfram aðgengilegt fræðimönnum framtíðarinnar um allan heim.

Útgefandi og höfundaréttur

Verkfræðingafélag Íslands (kt. 680269-6299). Engjateigi 9, 108 Reykjavík. 

Verkfræðingafélag Íslands (VFÍ) var stofnað 1912 og er fag- og stéttarfélag verkfræðinga og tæknifræðinga. Félagið er stærsta og öflugasta félag tæknimenntaðra á Íslandi. 

Höfundar eiga höfundarétt á innsendum handritum og á lokaútgáfu birtra greina.

Höfundar veita Verkfræðingafélagi Íslands óafturkræfan rétt til að birta og geyma efni blaðsins á rafrænu formi, svo sem á netinu og einnig til að gefa efnið út á prenti. Efni tímaritsins má eigi afrita með neinum hætti, hvorki að hluta né í heild án leyfis.

ISSN: Rafræn útgáfa: 2772-1086, pappírsútgáfa: 1670-7362.

Nánar um höfundarétt og afnotaleyfi

  • Höfundar halda höfundarrétti á handriti sínu og endanlegri útgáfu greinar. Varðandi yfirfærslu á höfundarrétti; vinsamlegast sjá hér að neðan.
  • Höfundar veita Verkfræðingafélagi Íslands óafturkallanlegt leyfi, eftir að endanleg próförk hefur verið samþykkt, til að birta greinina á rafrænu eða prentuðu formi og auðkenna sig sem upprunalegan útgefanda.
  • Höfundar veita Verkfræðingafélagi Íslands viðskiptaleg réttindi til að framleiða prentað bindi af tímaritinu til til að selja til bókasafna og einstaklinga.
  • Höfundar, eftir að endanleg próförk hefur verið samþykkt, veita þriðja aðila rétt til að nota greinina að vild svo framarlega sem upprunalegir höfundar hennar og tilvitnunarupplýsingar eru auðkenndar.
  • Greininni er dreift samkvæmt Creative Commons Attribution 4.0 Licence afnotaleyfinu
    ( Creative Commons — Attribution 4.0 International — CC BY 4.0. ) Nema annað sé tekið fram er tengdu efni dreift með sama leyfi.

    Samkvæmt þessu er þér frjálst að:
    Deila — afrita og dreifa efninu á hvaða sniði eða miðli sem er.
    Aðlaga — endurvinna, umbreyta, og byggja á efninu í hvaða tilgangi sem er, jafnvel gegn gjaldi.

    Þó samkvæmt eftirfarandi skilyrðum:

    Tilvísun
     — Höfundur verður að gefa upp viðeigandi tilvísanir, gefa upp tengil á notkunarleyfi og gefa upp þær breytingar sem hafa verið gerðar. Þú mátt gera þetta á sérhvern skynsamlegan hátt, en þó ekki þannig að gefið sé til kynna að leyfisgjafinn styðji þig eða notkun þína á efninu.

    Engar frekari takmarkanir — Höfundur má ekki setja inn lagaleg ákvæði eða tæknilegar hindranir sem gætu komið í veg fyrir notkun annarra í samræmi við það sem afnotaleyfið heimilar.