Leiðbeiningar fyrir ritrýnendur
Reglur um undirbúning handrita og ritrýni.
Ritrýnireglur VFÍ eru til leiðbeiningar fyrir höfunda og ritrýnendur. Með reglunum er meðal annars leitast við að fullnægja þeim skilyrðum um ritrýni, sem fram koma í reglum um matskerfi opinberra háskóla. Tímaritið fylgir siðareglum útgáfunnar eins og þær eru settar fram af Committee on Publication Ethics, COPE.
Eðli málsins samkvæmt verða reglur sem þessar í sífelldri endurskoðun. Allar athugasemdir, ábendingar eða tillögur eru vel þegnar og óskast sendar ritstjórnarfulltrúa.
Markmið ritrýni
Meginmarkmið ritrýni er að gefa ritstjórn ráð um hvernig meta skuli greinar. Hvort vinnan sé frumleg og gagnleg, vel unnin og í samræmi við nýjustu þekkingu. Ritnefnd velur þá að minnsta kosti tvo ritrýnendur sem skulu vera úr hópi fremstu sérfræðinga á því sviði sem greinin varðar til að annast ritrýnina í samræmi við neðangreint verklag.
Ritrýnin er ávallt nafnlaus, svokölluð blind rýni.
Ritrýni handrita er ætlað að tryggja fræðilegar og siðfræðilegar kröfur, en hún er einnig öðrum þræði þjónusta við höfunda og nauðsynlegur þáttur í því ferli að rita góða fræðigrein.
Forsendur ritrýni
Handritið skal fjalla um efni sem ekki hefur verið birt áður og er ekki í ritrýni í öðru vísindatímariti. Þegar handrit er metið af ritrýnanda er hugað að (1) frumleika handrits og framlagi til þekkingar á fræðasviðinu samkvæmt kröfum um inntak og gæði akademískra rannsókna á háskólastigi. Áhersla er lögð á (2) nákvæmni, skýrleika fræðilegrar umfjöllunar og samræmi hennar við viðurkenndar aðferðir á sviði verkfræðilegra rannsókna. (3) Sérstaklega er lagt mat á hvort handritið hafi í heild sinni vísindalegt nýnæmi, þ.e. hvort verið sé með viðurkenndum aðferðum að skapa nýja þekkingu á viðkomandi sviði innan verkfræðigreina.
Verklag ritrýni
Tímafrestur: Ritrýnandi er vinsamlegast beðinn um að ljúka ritrýni innan 30 daga frá því að viðkomandi fær greinina. Ef það reynist ekki vera mögulegt, skal hafa samband hið fyrsta við ritstjórnarfulltrúa eða þann einstakling úr ritstjórn blaðsins er bað hann að annast ritrýni.
Við val á ritrýnendum er tekið mið af sérþekkingu þeirra á því sviði sem handritið varðar. Ritnefnd tryggir að höfundur öðlist ekki upplýsingar um val á ritrýnendum. Nafnleynd ritrýnenda er því skilyrði ritrýni. Að sama skapi tryggir ritnefnd að ritrýnendur öðlist ekki upplýsingar um höfund handritsins. Höfundur getur óskað þess að ákveðnir aðilar ritrýni ekki greinina, til dæmis vegna hagsmunaárekstra og skal fylgja rökstuðningur með þeirri ósk. Ritrýnandi skal fara með efni handritsins sem trúnaðarmál.
Ritrýnendum er fyrst og fremst ætlað að fara yfir fræðilegt innihald handrits í samræmi við ofangreindar kröfur. Allir ritrýnendur skulu skila athugasemdum sínum til ritnefndar, þar sem settar skulu fram hugmyndir og tillögur um mögulegar úrbætur og uppástunga varðandi ákvörðun um samþykki greinar. Ritrýni skal vera nægilega nákvæm og skýr til þess að ritnefnd og höfundur fái fullan skilning á gagnrýni, hugmyndum og tillögum ritrýna. Athugasemdir skulu vera eins uppbyggilegar og unnt er, jafnvel þótt endanlegur dómur ritrýnenda sé neikvæður. Æskilegt er að ritrýnendur dragi saman meginniðurstöður sínar í upphafi, en setji síðan í kjölfarið fram nákvæmari útlistanir og athugasemdir svo sem varðandi styrkleika og veikleika rannsóknarinnar sem um ræðir.
Ritrýnendur skulu gera tillögu til ritnefndar um hver eftirtalinna leiða skuli valin:
- Fræðigrein fullnægir kröfum um ritrýni, greinin verði birt í óbreyttu formi (e. Accepted as is).
- Fræðigrein fullnægir kröfum um ritrýni ef höfundar gerir minniháttar breytingar (e. Minor revison requested).
- Greinin verði ritrýnd að nýju eftir endurskoðun. (e. Major revision requested).
- Greininni verði hafnað (e. Rejected).
Séu ritrýnendur ósammála í mati sínu ákveður ritnefnd hvaða afgreiðslu viðkomandi handrit fær og getur vísað greininni til fleiri ritrýnenda.
Fái handrit dóm (1) hjá ritrýnanda, og fullnægir því kröfum um ritrýni, mun ritnefnd að jafnaði hafa umsjón með því að greinin verði búin til útgáfu í samvinnu við höfund og er þá hlutverki ritrýnenda lokið. Fái handrit dóm (2) hjá ritrýnanda tekur ritnefnd ákvörðun um hvort handrit verði sent aftur til ritrýnenda eftir að höfundur hefur brugðist við athugasemdunum. Bregðist höfundur hins vegar ekki við athugasemdunum eða séu breytingar höfundar ófullnægjandi að mati ritrýnenda eða ritnefndar er heimilt að hafna útgáfu handritsins.
Leiðbeiningar um framsetningu
Miðað er við að framsetning efnis sé í samræmi við venjur sem gilda í virtum erlendum vísindatímaritum. Nota skal APA kerfið við framsetningu efnis, þetta á meðal annars við um gerð heimildaskrár, tilvísanir í texta, töflur og myndir, kaflafyrirsagnir og lengd beinna tilvitnanna. Greinar skulu vera vel yfirfarnar með tilliti til málfars og framsetningar.
Fremst í grein skal koma fram heiti greinar sem skal vera stuttur en jafnframt lýsandi fyrir efni greinarinnar. Því næst skal geta höfunda/r greinarinnar og vinnustað og heimilsfang vinnustaðar sem og netfang þess höfundar sem hafa skal samband við varðandi efni greinarinnar. Allir kaflar og undirkaflar skulu vera númeraðir. Öll tákn og skammstafanir sem notuð eru í greininni skulu vera útskýrð strax og þau koma fyrir. Tákn fyrir eðliseiginleika skulu fylgja Commission for Symbols, Units and Nomenclature of the International Union of Pure and Applied Physics. Allar tölur skulu vera skv. SI kerfinu (The International System of Units) og aukastafir afmarkaðir með kommu.
Greinin skal vera annað hvort á ensku eða íslensku. Í upphafi skal vera stuttur útdráttur á bæði íslensku og ensku að hámarki 300 orð hvor.
Handritinu skal í upphafi skilað í einu skjali sem inniheldur allar upplýsingar sem hér er krafist, texta greinarinnar, myndir, myndatexta, töflur og töflutexta og lista yfir heimildir. Að öllu jöfnu skal miða við hámarkslengd 20 blaðsíður, samtals með myndum og töflum, 12 punkta Times Roman letri og tvöföldu línubili.
Lögð er áhersla á að gott myndefni fylgi greinum. Myndir og töflur skulu vera með sem einföldustu sniði og skýringartexti fylgja með.
Eftir að grein er samþykkt skal höfundur senda inn lokahandrit og myndir skulu vera í prenthæfri upplausn.
Viðmið við ritrýni
Eftirfarandi viðmið eru leiðbeinandi um mat á greinum, hvort ritrýnendur og ritnefnd telja þær hæfar til birtingar. Ritrýnendur fá sérstakt eyðublað sem þeir fylla út.
- Að útdráttur sé í samræmi við innihald og titill sé lýsandi.
- Að efnistökum og tilgangi sé lýst í inngangi.
- Að grein sé gerð fyrir fræðilegu samhengi og
nýjustu rannsóknum, mikilvægi rannsóknarefnisins, tilgangi rannsóknarinnar,
rannsóknarspurningum, rannsóknarsniði, rannsóknaraðferðum og úrvinnslu gagna.
- Að niðurstöður séu settar fram með skýrum hætti,
studdar gögnum og rannsóknarspurningunum sé svarað.
- Að ályktanir séu studdar gögnum og fræðilegri
umræðu.
- Að greinin bæti við skilning og þekkingu á fræðasviðinu.
- Að uppbygging greinarinnar sé skilmerkileg með tilliti til inngangs, meginmáls og niðurlags.
- Að skráning heimilda sé í samræmi við APA-kerfið.
- Að vandað sé til frágangs og málfars.
Ekki er greitt fyrir greinaskrif eða ritrýni.
Reglur þessar eru samþykktar af Útgáfunefnd VFÍ. Fyrsta útg. mars 2013. – Önnur útg. janúar 2017. – Þriðja útg. október 2019.